Ferilskrá

Af hverju eigið yfirlit í stað þess að nota staðlað form?

Hægt er að útbúa umsóknir á marga vegu, allt frá því að fylla út stöðluð eyðublöð til þess að hanna eigið yfirlit. Þín eigin ferilskrá gefur þér tækifæri til að lýsa sjálfum þér á þinn hátt og einnig að setja efnið fram eins og þér finnst henta best. Þannig auðveldar þú atvinnurekanda að draga ályktanir um þig. Efst á blaðinu ættu persónulegar upplýsingar að vera. Gott er að hafa náms- og starfsferil í réttri tímaröð þannig að nýjasta námið og reynslan komi fyrst og svo koll af kolli. Best er ef slíkar upplýsingar komast á eina til tvær síður. Þær skulu settar upp á snyrtilegan og skýran hátt og vera lausar við allar óþarfa skreytingar. Gott er að gera góða grein fyrir nýfenginni starfsreynslu, ef hún er fyrir hendi. Oft hentar vel að skrifa persónulegt bréf með ferilskrá, þar sem einstaklingurinn útskýrir áhuga á tilteknu starfssviði.

Skýrar upplýsingar þarf um eftirfarandi atriði:

Persónulegar upplýsingar, menntunar- og starfsferill, tölvu- og tungumálakunnátta og meðmælendur.

Þegar sótt er um starf eftir auglýsingu:

Þegar sótt er um skv. auglýsingu er reglan sú að senda inn skriflega umsókn og senda með umsókninni ferilskrá, ásamt öðrum þeim gögnum sem þurfa þykir. Ekki er nauðsynlegt að senda formlegt umsóknarbréf en rétt er að hafa í huga að með því að senda slíkt bréf tengir viðkomandi sig við það starf sem auglýst er.

Lýstu sjálfum þér á hlutlausan hátt, þ.e. ekki gera lítið úr hæfni þinni eða vera of sjálfhælin(n).

Það er engin ákveðin regla um hvernig formlegt umsóknarbréf skal líta út en samt má segja að eftirfarandi atriði þurfi að koma fram í slíkum bréfum:

1. Ávarp. Persónulegra er að stíla bréfið á einhvern sérstakan t.d. þann sem er skrifaður fyrir auglýsingunni ef um ráðningarskrifstofu er að ræða. Einnig er hægt að hafa ávarp á borð við „Ágæti viðtakandi".

2. Ástæða umsóknar.

3. Vísa til auglýsingar, staður, dagsetning og starfsheiti auglýsingar.

4. Tilgreina fylgiskjöl með umsókn, s.s. ferilskrá og prófskírteini.

5. Taka fram ef samþykki umsækjanda þarf til að hafa samband við núverandi vinnuveitendur. Bréf sem þetta á ekki að vera meira en ein síða. Meta verður í hvert skipti hvaða fylgiskjöl skulu send með bréfinu en gott er að hafa sem reglu að senda ekki of mikið af skjölum og nægir t.d. að senda með nýjustu útskriftarskírteini/einkunnir. Oft má líka taka fram í ferilskrá hvaða námskeið viðkomandi hefur sótt, greinarskrif og meðmælendur í stað þess að senda sjálf gögnin með. Mikilvægt er að fara yfir öll þau skjöl sem send eru með og hvort réttar upplýsingar séu á ferilskránni.

Sýnishorn:
Smelltu HÉR til að sjá sýnishorn af ferilskrá.