Kynningarbréf

Það getur verið töluvert vandasamt að skrifa starfsumsókn. En að öllu jöfnu munu gæði umsóknar þinnar endurspeglast af þeim tíma, undirbúningi og áhuga sem þú leggur í gerð hennar. Hafðu í huga að fyrir væntanlegan atvinnuveitanda samsvarar starfsumsóknin fyrstu kynnum af þér. Það er því mikilvægt að hún skapi jákvæða mynd af þér og veki áhuga lesenda til að vita meira um umsækjandann.

Áður en umsókn er skilað inn er mikill kostur að fá aðra til að lesa yfir og gefa endurgjöf. Það eykur einnig líkur á að umsóknin sé laus við stafsetningar- og innsláttarvillur og ólíklegra að texti sé óskýr eða torskilinn.

Auglýst starf
Til þess að geta skrifað góða starfsumsókn er nauðsynlegt að lesa starfsauglýsingu gaumgæfilega, leita frekari upplýsinga á heimasíðu fyrirtækis eða hafa samband við þann sem á að veita frekari upplýsingar til þess að tryggja að þú skiljir eðli starfsins rétt.

Umsókn að eigin frumkvæði
Slíka umsókn getur þú hvort sem er mótað að útvöldum fyrirtækjum eða útbúið sem opna umsókn, sem þú getur sent víðar.
Ef það er ákveðið fyrirtæki sem þú ætlar að sækja um hjá er skynsamlegt að kynna sér fyrirtækið gaumgæfilega. Sú leið er mjög tímafrek, en getur jafnframt verið árangursrík. Mun fljótlegra er að vinna með opna umsókn, en þar er sömuleiðis ekki um jafn markvissa umsókn að ræða. Veltu eftirfarandi fyrir þér:
· Í hvers konar starfi og deild óskarðu að starfa?
· Hversu mikla reynslu hefur þú í sambærilegu/svipuðu?
· Hefur þú sértæka reynslu/þekkingu sem nýtist fyrirtækinu?
· Af hverju ætti fyrirtækið að ráða þig?

Almennt um gerð umsóknar
Komdu þér beint að efninu og hafðu umsóknina stutta. Umsókn á helst ekki að vera lengri en ein A4 blaðsíða fyrir utan ferilskrá. Eðlilega fer lengd umsóknar þó eftir aldri, reynslu og umfangi starfsins. Því meiri reynsla, því meiru er frá að segja og því lengri getur umsóknin verið.
Helst ekki senda fleiri en eitt eða tvö fylgiskjöl.
Hafðu í huga að það sem stendur í ferilskrá þarf ekki að endurtaka í umsókn.
Þú getur stuðst við eftirfarandi uppsetningu:

Inngangur
· Af hverju ert þú að sækja um starfið?
· Hvernig/hvað þekkir þú til fyrirtækisins?
· Hversu mikla reynslu og þekkingu hefur þú á umræddu sviði?

Innihald
· Á hvaða sviðum uppfyllir þú þær kröfur sem fyrirtækið hefur sett fram?
· Dragðu athyglina að þeirri reynslu/þekkingu sem þarf í starfið
· Af hverju ættir þú að fá starfið?

Lokaorð
· Áskorun/ósk um frekari viðræður?
· Stutt og hnitmiðuð lokaorð.
· Undirskrift