Starfsviðtalið

Tilgangur umsóknar og ferilskrár er eðlilega að fá boð um starfsviðtal. Það er hins vegar ekki umsóknin og ferilskráin sem hefur mest áhrif á það hvort þú fáir starfið eða ekki. Það er frammistaða þín í viðtalinu, en þó er ekki öruggt að jákvætt viðtal veiti þér starfið. Ennfremur er sú staða möguleg að þú áttir þig á því í viðtalinu að starfið henti þér ekki í raun. Notaðu því viðtalið vel og undirbúðu þig vandlega.

Klæðaburður
Þumalputtareglan er að snyrtilegur og íhaldssamur klæðnaður sé öruggasti klæðaburðurinn.
Gættu þess að fötin séu hrein.

Hafðu meðferðis:
· Eintak af umsókn og ferilskrá
· Penna og blað
· Prófskírteini

Líkamstjáning
· Haltu augnsambandi
· Vertu jákvæð(ur)
· Haltu fingrunum kyrrum
· Ekki sitja með krosslagðar hendur
· Svaraðu án málalenginga
· Talaðu skýrt

Forðastu
· Að skýra frá trúnaðarupplýsingum
· Að GSM síminn hringi. Hafðu slökkt á honum
· Að grípa fram í fyrir. Hlustaðu eftir hvað er verið að spyrja um
· Að nota of mikið af slangri eða fagorðum

Fyrirtækið
· Aflaðu þér upplýsinga um fyrirtækið
· Skoðaðu heimasíðu fyrirtækisins
· Skoðaðu t.d. kynningarbæklinga og ársreikninga
· Leitaðu t.d. í greinasafni mbl.is eða sambærilegu

Starfsgreinin
· Kynntu þér markaðinn sem fyrirtækið starfar á
· Hverjir eru helstu samkeppnisaðilar? 

Undirbúðu spurningar
· Hversu stórt er fyrirtækið?
· Hverjir eiga fyrirtækið?
· Hvernig er skipulag fyrirtækisins?
· Hver er velta fyrirtækisins?
· Á hvaða mörkuðum starfar fyrirtækið?
· Hversu gamalt er fyrirtækið?
· Hvernig hefur fyrirtækið þróast?
· Hverjir eru lykilstarfsmenn fyrirtækisins?
· Hvaða gildi eru áberandi í fyrirtækinu?
· Hvernig er starfsandinn í fyrirtækinu?
· Hvað felst í starfinu?
· Hvaða verkefni eru framundan?
· Hver verður næsti yfirmaður?
· Fylgir starfinu stjórnunarábyrgð?
· Fylgja starfinu mannaforráð?
· Ber starfsmaður ábyrgð á áætlunum og kostnaði?
· Hvað einkennir samstarfið?
· Hvað einkennir innanhúsfundi (formlegir/frjálslegir)?
· Hvaða möguleikar eru fyrirsjáanlegir í nánustu framtíð?
· Hvers vegna hætti fyrri starfsmaður?

Undirbúðu svör
· Hvaða fög vöktu mestan áhuga þinn í námi?
· Hvers vegna sækir þú um þetta starf?
· Hver af þínum fyrri störfum hafa hentað þér best?
· Hver voru þín stærstu mistök?
· Eru verkefni sem eiga betur við þig en önnur?
· Nefndu dæmi um ákvarðanir sem þú hefur tekið í fljótfærni?
· Nefndu dæmi um verkefni sem þú skilaðir ekki á tíma?
· Hvernig líkar þér að bera ábyrgð?
· Hverjar eru væntingar þínar til þessa starfs?
· Lýstu hefðbundnum vinnudegi?
· Hverjir eru styrkleikar þínir?
· Á hvaða sviðum gætir þú bætt þig?
· Hvað gerir þú í frítíma þínum?
· Hvernig myndu starfsfélagar þínir lýsa þér?
· Hvernig myndi yfirmaður þinn lýsa þér?
· Hvar sérðu þig eftir 5 ár?
· Hvers vegna ert þú rétti aðilinn í starfið?
· Hverjar eru væntingar þínar til launa?
· Ert þú að sækja um fleiri störf en þetta?
· Getur þú nefnt 5 góðar ástæður fyrir því að þú ættir að fá starfið?
· Hvernig er heilsufar þitt?
· Hefur þér einhvern tíman verið sagt upp?
· Er eitthvað sem þú vilt fá frekari upplýsingar um?

Streita
Það er í lagi að vera stressaður fyrir og í starfsviðtali. Í litlum mæli getur það jafnvel virkað jákvætt, sýnir að þú tekur fundinn alvarlega. Starfsviðtalið ber alltaf að taka alvarlega. Eitt starfsviðtal getur haft mikil áhrif á starfsferil þinn í framtíðinni. Reyndu þó eftir megni að fara í gegnum viðtalið á afslappaðan hátt, þ.e. taktu hlutunum eins og þeir koma. Vertu ekki að hafa áhyggjur af því hvað verður spurt um næst eða af hverju spyrjandi spyr einmitt þessarar spurningar. Hlustaðu vel og reyndu að svara eftir bestu sannfæringu.